Laugardaginn 10. október voru liðin 400 ár frá því Ari Magnússon sýslumaður kallaði saman lið í Ögri til aðfarar gegn Böskum sem höfðu komið sér fyrir í Æðey og á Sandeyri á Snæfjallaströnd. Vegna slæms veðurs hélt liðið ekki til Æðeyjar fyrr en þann 13. október. Það kvöld og aðfararnótt þess 14. október 1615 voru 18 Baskar vegnir í Æðey og á Sandeyri, og mun þetta að líkindum mannskæðasta
atlaga hérlendra yfirvalda gegn óvelkomnum útlendingum frá því að eiginlegt ríkisvald komst hér á á árunum 1262 til 1264. Er sagt að lík skipstjórans, Martins de Villafranca, sé dysjað í Ögurhólmum, en það mun hafa rekið þangað. Er þar síðan kölluð Bullufrankagjá.

Baskavinafélagið á Íslandi, Ögur ehf, Sýslumaðurinn á Vestfjörðum og Súðavíkurhreppur stóðu að gerð skiltis um Spánverjavígin sem var afhjúpað við athöfn í Ögri laugardaginn 10. október 2015. Skiltið byggir á efni sýningar Basakvinafélagsins um Spánverjavígin í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Vaxtarsamning Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða og fleiri. Aðalhöfundur texta er Sigrún Antonsdóttir. Guillermo Zubiaga gerði teikningar. Aðalsteinn Svanur Sigfússon gerði kort og Úlfur Kolka og Ólafur J. Engilbertsson sáu um hönnun.

Myndir