Fjórtyngd útgáfa á Spánverjavígunum 1615 (á íslensku, basknesku, spænsku og ensku)

Aðfaranótt 21. september 1615 brotnuðu þrjú hvalveiðiskip frá borginni Donostia í Guipúzcoa-héraði á Spáni í Reykjarfirði á Ströndum, um það bil sem búist var til brottfarar eftir ábatasama veiði. Vitað er að árið 1615 var gjöfult til veiða og Juan Ignacio Iztueta segir frá því í Sögu Gipuzkoa (1847) að á tímabilinu hafi baskneskir hvalveiðimenn drukkið alls 3.680 tunnur af eplavíni. En þrátt fyrir það áttu ekki allir afturkvæmt af miðunum það árið. Skipin fórust í skelfilegu óveðri, þrír skipverjar drukknuðu og um áttatíu voru eftir skipreika. Skipstjórarnir ákváðu róa fyrir Hornstrandir á skipsbátunum sem eftir voru í von um að finna haffært skip til að sigla af landi brott. Það tókst ekki og því var ákveðið að skipta liði. Um fimmtíu manns höfðu vetursetu á Vatnseyri. Hinir þrjátíu og tveir máttu sæta ofsóknum Ara Magnússonar sýslumanns og manna hans Aðeins einn þeirra lifði af og tókst að komast undan til félaga sinna á Vatnseyri. Þrettán manns létu lífið á Fjallaskaga í Dýrafirði þann 5. október, þrír voru vegnir í Æðey og fimmtán á Sandeyri við Ísafjarðardjúp þann 18. október. Nöfn mannanna sem dóu eru að mestu óþekkt. Lík þeirra voru limlest og voru ekki jörðuð fyrr en nokkru seinna.

Ólafur á Söndum skrifaði Spænsku vísur um þessa atburði í þeim tilgangi að réttlæta aðfarirnar, en í þeim var basknesku hvalveiðimönnunum lýst sem blóðþyrstum sjóræningjum, þjófum og nauðgurum. Jón lærði Guðmundsson, sjálfmenntaður íslenskur fræðimaður, náttúruskoðari, málari, skáld, og af sumum talinn galdramaður, sagði frá þessum atburðum í Sannri frásögu af spánskra manna skipbrotum og slagi, þar sem hann gagnrýndi gjörðir Ara Magnússonar og varði baskana fyrir ásökunum um illt framferði. Í kjölfarið var hann dæmdur í útlegð. Þetta rit, sem ekki hefur áður verið birt á basknesku, ensku eða spænsku, kemur hér út á fjórum tungumálum með inngangi sagnfræðingsins Más Jónssonar, sem einnig bjó íslensku textana til útgáfu.

Þó að í texta Sannrar frásögu tali höfundur um Spánverja og spænska og franska sjómenn, þá voru hvalveiðimennirnir frá Gipuzkoa- og Lapurdihéruðunum, og því um að ræða Baska. Árið 1615 var Gipuzkoahérað ríki með eigin framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvald, samkvæmt lögum frá árinu 1583 sem voru í gildi til 1692. Gipuzkoa var ekki hluti af Kastilíu árið 1615, og varð ekki hluti af spænska ríkinu fyrr en á 19. öld. Sama máli gegnir um Lapurdi- héraðið og Frakkland.

Nú eru 400 ár síðan að þrjátíu og einn baskneskur sjómaður voru vegnir á Íslandi. Þessi bók heiðrar minningu þeirra.

Samstarfsaðilar um fjórtyngda útgáfu á Spánverjavígunum 1615 (á íslensku, basknesku, spænsku og ensku):
Forlagið (http://www.forlagid.is); Center for Basque Studies University of Nevada, Reno (https://basque.unr.edu), Barandiaran Chair for Basque Studies University of California, Santa Barbara (http://violagmiglio.net/Violas_Site/Conferences.html), Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum (http://vigdis.hi.is); Mennta- og menningarmálaráðuneytið (http://www.menntamalaraduneyti.is)