BaskaseturÁrið 2020 kom fram hugmynd í átakinu Áfram Árneshreppur um Baskasetur á Djúpavík þar sem hægt væri að fræðast um tengsl Baska og Íslendinga. Hótel Djúpavík hefur um árabil haft umsjón með gömlu síldarverksmiðjunni og sinnt viðgerðum á verksmiðjunni og tönkunum. Baskavinafélagið fór í samstarf við Hótel Djúpavík og varð niðurstaðan sú að verkefnið hlaut haustið 2022 styrk að upphæð 200.000 evra, eða um 30 milljónir króna frá Evrópusjóðnum Creative Europe í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Haizebegi í Bayonne, Albaola í Pasaia og fleiri aðila. Í gömlu síldartönkunum í Djúpavík verður sögusýning um samskipti Íslendinga og Baska. Einnig verður þar eftirlíking af léttabát eða „txalupa“ sem siglt var á í land úr skipunum sem liggja á botni Reykjarfjarðar. Skipasmiðir frá Albaola í í Pasaia leiðbeina við smíði léttabátsins.

Samstarfsaðilar frá franska og spænska hluta Baskalands komu hingað til lands og var í ágúst 2023 á kynningarviðburð Baskaseturs í Djúpavík. Tónleikar voru á vegum tveggja hljómsveita frá Bayonne í Frakklandi, HABIA tríóisins og Txalaparta dúósins, sem fluttu baskneska tónlist í gömlu síldarverksmiðjunni og í einum tankanna. Ólafur J. Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins, Héðinn Ásbjörnsson formaður Baskaseturs og Þórarinn Blöndal sýningahönnuður kynntu verkefnið og sýningarhugmyndina. Kynntur var fyrsti áfanginn að Baskasetri þar sem smiðir frá Albaola í SanSebastian á Spáni leiðbeina við að smíða baskneskan léttabát, „txalupa“. Mikel Leoz og Enara Novillo kynntu Albaola fornbátasafnið og bátasmíðakennslu þeirra. Denis Laborde hjá Haizebegihátíðinni í Bayonne flutti erindi um baskneska tónlist. Elfar Logi Hannesson leiklas hluta úr leikriti eftir Tapio Koivukari um Ariasman. Grunnskólanemar frá Hólmavík og Drangsnesi sáu um uppsetningu á verkstæði í gerð hljóðfæra úr rusli og léku með aðstoð basknesku listamannannna á hljóðfærin og á „txalaparta“, ásláttarhljóðfæri, sem var gert á staðnu

Í október 2023 var haldið málþing í fornbátasafninu og skipasmíðastöðinni Albaola í Pasaia í Baskalandi Spánar. Yfirskrift málþingsins var „Baskneski hvalveiðibáturinn, uppruni iðnaðarhvalveiða.“ Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur var á málþinginu með erindi um leitina að basknesku hvalveiðiskipunum sem fórust í Reykjarfirði á Ströndum í september 1615 og lýsisframleiðslu á Íslandi frá upphafi vega. Ásdís Thoroddsen sagði frá íslenska súgbyrðingnum og sýndi kvikmynd sína Súðbyrðingur – Saga báts. Aðrir sem tóku til máls á málþinginu af Íslands hálfu voru Ólafur J. Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins, Héðinn Birnir Ásbjörnsson formaður Baskaseturs og Alex Tyas verkefnisstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða. Af hálfu heimamanna voru með erindi Xabier Agote, forstjóri Albaola, Xabier Alberdi forstjóri Baskneska Sjóminjasafnsins, Ander Arrese kvikmyndagerðarmaður,  Álvaro Aragón Ruano sagnfræðingur, Beñat Egiluz Miranda neðansjávarfornleifafræðingur og Maurizio Boriello þjóðfræðingur og bátasmíðakennari frá Ítalíu. Aðrir erlendir fræðimenn sem þátt tóku voru Toby Jones fornleifafræðingur frá Bretlandi, Brad Loewen mannfræðingur frá Kanada ogPeter Bakker málvísindamaður frá Danmörku. Einnig ávörpuðu málþingið Teo Alberro Bilbao borgarstjóri Pasaia og Maria José Bilbao ræðismaður Íslands í Baskalandi. Tveir íslenskir bátasmiðir, Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson voru svo á námskeiði hjá Albaola í gerð basknesks léttabáts, svokallaðs „txalupa“, sem verður á sýningu Baskaseturs í Djúpavík.

Dagana 7.-8. júní 2024 verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og aðila í Baskahéruðum Spánar og Frakklands. Nú er Hafliði Aðalsteinsson ásamt Einari Jóhanni Lárussyni að hefja smíði „txalupa“ léttabáts eftir teikningum frá Albaola og verður báturinn fluttur norður á sýninguna. Haldið verður í Djúpavík málþing á ensku um sögu Baska á Íslandi þessa daga, 7. og 8. Júní.

Baskasetur er samstarfsverkefni Baskavinafélagsins, Háskólaseturs Vestfjarða, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Hótels Djúpavíkur sem hýsir væntanlegt Baskasetur. Verkefnið hlaut styrki frá Creative Europe, Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.