Um félagið
Baskavinafélag – stofnfundur 20. febrúar 2012 á ræðismannaskrifstofu Spánar
Markmið þessa fundar var að kanna áhugann á að stofna til vináttufélags Íslendinga og Baska og/eða alþjóðlegra samtaka fræðimanna og áhugafólks um hvalveiðar og þróun alþjóðasamskipta, tungumála og viðskipta á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum. Hugmyndin var að koma upp vefsíðu, gefa Spánverjavígin 1615 út á spænsku og ensku og skipuleggja ráðstefnu, koma á tengslum við Baska, setja upp sögusýningu, kanna tengsl Íslendinga og Baska í gegnum örnefni, lingua franca ofl., hafa minningarathöfn, afhjúpa minnisvarða og skipuleggja leiðsagnir á söguslóðir Spánverjavíganna þegar 400 ár yrðu liðin frá þeim árið 2015.
Á fundinn mættu 18 manns. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn: Magnús Rafnsson, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Ólafur Engilbertsson, Ólafur Hannibalsson, og Sjón.
Aðdragandinn: Sýning og málþing um Spánverjavígin 1615
Helgina 24.-25. júní 2006 var haldið málþing í Dalbæ á Snæfjallaströnd á vegum Snjáfjallaseturs og verkefnisins Vestfirðir á miðöldum í samstarfi við Sögufélag Ísfirðinga, Strandagaldur og Náttúrustofu Vestfjarða um Spánverjavígin sem áttu sér stað árið 1615. Á málþinginu var samskiptum Íslendinga og Baska á 17. öld gerð skil; fornleifarannsóknum sem tengjast samskiptum þjóðanna, sögulegum forsendum Spánverjavíganna, eftirmálum þeirra og samhengi við aðra atburði þessa tíma, hvalveiðum Baska og viðskiptatungumálinu lingua franca, útbreiðslu þess og þýðingu fyrir samfélag þess tíma.
Jón Þ. Þór var fundarstjóri, Magnús Rafnsson, fjallaði um Jón lærða og fornleifafund í Steingrímsfirði, Jónas Kristjánsson, fjallaði um útgáfu ritsins um Spánverjavígin, Torfi Tulinius, fjallaði um það hvort Spánverjavígin hafi verið fjöldamorð, Már Jónsson, fjallaði um Spánverjavígsdóma Ara í Ögri, Selma Huxley fjallaði um sögu Martins de Villafranca, Michael Barkham, fjallaði um hvalveiðar Baska við Nýfundnaland, Trausti Einarsson, fjallaði um hvalveiðar Baska við Ísland og spænsk-enska ritið Itsasoa, Sigurður Sigursveinsson, fjallaði um Spánverjavígin eins og þau birtust í “Sannri frásögu” Jóns lærða og Henrike Knörr, fjallaði um viðskiptatungumál sem þróaðist í samskiptum þjóðanna. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2006 var helgað málþinginu og eru þar birtir allir fyrirlestrarnir.
Á Jónsmessukvöldvöku á laugardagskvöldinu flutti Steindór Andersen valdar rímur úr Víkingarímum sem fjalla um Spánverjavígin og Elfar Logi Hannesson flutti frumsaminn leikþátt, Áfram Spánn, sem byggir á upplifun Jóns lærða á Spánverjavígunum. Á sunnudeginum var vettvangsskoðun með leiðsögn í Æðey og Ögur. Málþingið tókst vel í alla staði og var rætt um áframhaldandi samstarf um að kanna betur samskipti Íslendinga og Baska í byrjun 17. aldar. Sýning um Spánverjavígin var einnig opnuð við þetta tækifæri á Snæfjallaströnd, farandsýning sem var svo einnig sett upp í sal Strandagaldurs á Hólmavík.
Á Strákatanga í Steingrímsfirði á Ströndum stóð yfir fornleifauppgröftur í mörg ár sem Ragnar Edvardsson stýrði í samstarfi við Strandagaldur, Magnús Rafnsson og Sigurð Atlason. Þeir kváðust hafa verulegan áhuga á samstarfi. Þeir hafa verið í sambandi við baskneskar rannsóknir í vesturhluta Bandaríkjanna og Baskalandi og mættu á þeirra vegum á ráðstefnu um hvalveiðar Baska á Norður-Atlantshafi fyrir ári í Kaliforníu. Meðal þeirra sem að þeirri ráðstefnu stóðu eru Interdisciplinary Humanities Center, Barandiarán Chair of Basque Studies við University of California Santa Barbara og Etxepare Institute. Þar fyrir utan hafa þeir verið í sambandi við Baska frá San Sebastian, við hollenska rannsóknaraðila að hvalveiðum á sautjándu öld, svo sem Louwrens Hacquebord við háskólann í Groeningen, við NABO og fleiri. Allt tengist þetta rannsóknarvinnu þeirra undanfarin ár. Einn angi af þessu samstarfi er bók sem kom út 2015, gefin út í samstarfi Santa Barbara háskólans og Strandagaldurs. Þar eiga Ragnar og Magnús báðir greinar, Ragnar um fornleifafræðilegu hlið málanna og Magnús um samskipti Íslendinga og Baska, m.a. með vísun í þjóðsögur og örnefni. Auk þess starfaði Magnús sem yfirlesari að enskri þýðingu að Sannri frásögu Jóns lærða sem verður í bókinni. Við þetta má bæta því sem allir viðkomandi eru sammála um að hafa hljótt um þar til tækifæri
gefst en það er fræðileg útgáfa á fjórða basknesk-íslenska orðasafninu sem er nýlega fundið.
Það var ýmislegt þegar í gangi á Ströndum sem tengist Spánverjavígunum og annað á umræðustigi svo sem sýning um hvalveiðarnar og móttaka á hvalveiðisvæðinu að Strákatanga 2015. Áætluð var heimsókn til Baskalands til að koma á enn frekara samstarfi við þarlenda nafngreinda fræðimenn og í sumar fer fornleifauppgröftur á nýtt stig, þ.e. fyrsta þrepið í að grafa upp aðra hvalveiðistöð í Kaldrananeshreppi. Það er því augljóst að áhugi Strandamanna á að færa þetta lengra er fyrir hendi.
Tapio Koivukari, finnskur rithöfundur hefur ritað skáldsöguna Ariasman í þýðingu Sigurðar Karlssonar sagði að sér litist mjög vel á að stofna Baskavinafélag og vonaði að hann gæti orðið að liði á einn eða annan hátt. Hann taldi að bókin sín gæti komið að notum til framdráttar þessu málefni.
Hann nefndi að áhugi sé um þetta málefni meðal fræðimanna, einn með fremstu sagnfræðinga um útgerðasögu Baskanna er Michael Barkham, búsettur í San Sebastián í Baskahéraðinu eða í Donostia í Euskal Herria eins og það hljómar á basknesku.
Svo má nefna Xabier A. Irujo, sem segja má að sé “Vestur-Baski” (með tilvísun í Vestur-Íslendinga) en hann býr í Nevada. Hann vill gjarnan vera í samstarfi og segir að þeir séu að velta fyrir sér hvað ætti að gera í tilefni 400 ára afmælis atburðarins.
Xabier og Viola Miglio í Santa Barbara-háskóla stóðu fyrir ráðstefnu 2011 og þar tók líka þátt Kendra Wilson, sem er málfræðingur og hefur áhuga á verslunarmáli Baska og Íslendinga, lingua franca.
En aðalmaðurinn í Euskal Herria að mati Tapios er tvímælalaust Xabier Agote, formaður Albaola Elkartea, fornbátaslipps í Pasaia, eða Donibane Sanjuan. Þeir eiga u.þ.b. 30 báta eða eftirlíkingar, mismunandi gerðir sem Baskar hafa notað gegnum tíðina. Þeir eiga tvær eftirlíkingar af hvalveiðibátum sem voru notaðir á 16. og 17. öld og hafa farið í leiðangur til Nýfundnalands og róið þessum bátum og eru einnig að skipuleggja leiðangur til Íslands af þessu tilefni.
Þeir eru að smíða eftirlíkingu af hvalveiðiskipi San Juan sem sökk í Red Bay, Labrador, eða Buturas í Terranova einhverntíma á 16. öld.
Skipið átti að vera tilbúið fyrir 2016 þegar Donostia (San Sebstian) var menningarborg Evrópu, en árið 2024 er enn verið að ljúka smíði þess.
Tapio bendir einnig á sjóminjasafnið í San Sebastian, Donostiako Untzi Museoa.
Af þessu má sjá að margt var í gangi til að minnast Spánverjavíganna 1615 og til að halda uppi tengslum við Baska, en þessi fundur var haldinn fyrst og fremst til að stilla saman strengi í tilefni af því að 2015 voru 400 ár liðin frá þessum atburðum.
Dagskrá í tilefni af 400 ára minningu Spánverjavíganna
Dagskrá Baskavinafélagsins á þessu minningarári Spánverjavíganna er yfirgripsmikil síðustu daga vetrar og í sumarbyrjun.
Sunnudaginn 19. apríl 2015
Stórtónleikar í Salnum í Kópavogi kl 19.30
Baskneska þjóðlagasveitin Oreka TX kemur fram ásamt Steindóri Andersen, Hilmari Erni Hilmarssyni, Páli Guðmundssyni og strengjasveit.
Mánudaginn 20. og þriðjudaginn 21. apríl 2015
Alþjóðleg ráðstefna í Þjóðarbókhlöðu í samstarfi Baskavinafélagsins við Gipuzkoa-hérað, Basknesku Etxepare stofnunina, Center for Basque Studies University of Nevada, Reno, Barandiaran Chair for Basque Studies University of California, Santa Barbara, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
Erlendir fræðimenn sem halda erindi eru Xabier Irujo, Viola Miglio, Alavaro Aragon, Rikardo Etxepare, Mari Jose Olaziregi, Aurélie Arcocha-Scarcia, Michael M. Barkham og Tapio Koivukari.
Innlendir fræðimenn verða m.a. Ragnar Edvardsson, Viðar Hreinsson; Torfi Tulinius, Helgi Þorláksson, Magnús Rafnsson, Einar G. Pétursson og Hjörleifur Guttormsson.
Miðvikudag 22. apríl 2015
Afhjúpun minningarskjaldar á Hólmavík að viðstöddum héraðsstjóra Gipuzkoa, menningarstjóra héraðsins, Illuga Gunnarssyni menningarmálaráðherra og Jónasi Guðmundssyni sýslumanni Vestfjarða.
Lok maí/byrjun júní – september/október 2015
Farandsýning um Spánverjavígin á fjórum tungumálum, íslensku, basknesku, ensku og spænsku. Guillermo Zubiaga gerði teikningar. Sýningin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, á Hólmavík, Reykjum í Hrútafirði, Snjáfjallasetri og fleiri stöðum. Hún endar í Þjóðarbókhlöðu í september og október.
Föstudaginn 17. júlí var dagskrá í San Sebastian/Donostia í Baskalandi þar sem sýningin um
Spánverjavígin var opnuð á basknesku, kynnt þrítyngd útgáfa Spánverjavíganna (á basknesku,
spænsku og ensku) og flutt ávörp.
Síðast en ekki síst er útgáfa Spánverjavíganna 1615 (Sannrar frásögu Jóns lærða) á fjórum tungumálum, íslensku, basknesku, ensku og spænsku í samstarfi við Center for Basque Studies og Forlagið einn merkasti viðburður afmælisársins.